- Viktor Gísli Hallgrímsson og samherjar í Nantes unnu afar mikilvægan sigur í gærkvöld þegar þeir höfðu betur gegn Montpellier á heimavelli, 31:30, í dramatískum háspennuleik í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Liðin deildu öðru sæti deildarinnar fyrir viðureignina en á eftir er Nantes eitt liða í öðru sæti með 25 stig eftir 15 leiki. Montpellier er tveimur stigum á eftir. PSG er efst með 28 stig að loknum 14 leikjum.
- Viktor Gísli kom ekk mikið við sögu í leiknum við Montpellier. Króatinn Ivan Pesic stóð í markinu nær allan leikinn. Viktor Gísli varði eitt skot af fjórum sem hann fékk á sig, væntanlega allt vítaköst. Sigurleikurinn var síðasta viðureign Nantes á árinu.
- Handknattleikssamband Evrópu hefur ákveðið að úrslitahelgi Evrópudeildar kvenna fari fram í Graz 11. og 12. maí á næsta ári. Þetta verður annað árið í röð sem úrslitaleikir keppninnar verða í Raiffeisen Sportpark í austurrísku borginni en það þótti gefast vel að leika úrslitaleikina á hlutlausum velli í stað þess að eitt liðanna fjögurra sem væri í undanúrslitum væri gestgjafi.
- Úrslitahelgi Evrópudeildar karla verður Barclays Arena í Hamborg 25. og 26. maí. Í fyrsta skipti verður úrslitahelgi keppninnar leikin á hlutlausum velli. Ef vel tekst verður sá háttur hafður á næstu árin.
- Auglýsing -