- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson fór hamförum í marki GOG í gærkvöld þegar liðið vann Bidasoa, 30:28, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik karla. Leikið var á Spáni. Viktor Gísli reið svo sannarlega baggamuninn fyrir GOG með stórleik sínum. Hann varði 21 skot, 45% markvörslu, og hefur annar eins stórleikur vart sést þar um slóðir um langt skeið. Svíinn Jerry Tollbring var allt í öllu í sóknarleiknum hjá GOG og skoraði þriðjung marka liðsins.
- GOG stendur þar af leiðandi afar vel að vígi fyrir síðari leikinn sem fram fer á Fjóni á næsta þriðjudag. Samanlagður sigurvegari í tveimur leikjum kemst í átta liða úrslit.
- Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Magdeburg með átta mörk auk þriggja stoðsendinga þegar liðið gerði jafntefli við Sporting í Lissabon í gærkvöld í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Gísli Þorgeir Kristjánsson var einnig í liði Magdeburg en skoraði ekki mark eftir því sem næst verður komist. Liðin mætast á ný í Magdeburg á þriðjudagskvöld. Magdeburg vann Evrópudeildina á síðasta ári.
- Kari Aalvik Grimsbø fyrrverandi landsliðsmarkvörður Noregs í handknattleik var á dögunum ráðin þjálfari Byåsen í Noregi ásamt Valery Putans. Þeirra markmið er aðeins eitt og það er að tryggja að Byåsen kræki í áttunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar og komist þar með í úrslitakeppnina. Byåsen er rétt fyrir neðan strik um þessar mundir, situr í 10. sæti. Grimsbø hefur ekki áður þjálfað meistaraflokkslið í kvennaflokki.
- Þýski landsliðsmaðurinn Fabian Böhm yfirgefur Hannover-Burgdorf eftir keppnistímabilið og gengur til liðs við HC Kriens-Luzern í Sviss.
- Auglýsing -