- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson varði 8 skot, 33%, þann tíma sem hann stóð í marki Barcelona í gær í stórsigri liðsins, 41:29, á Cajasol Ángel Ximénez P. Genil, 41:29, á heimavelli í úrvalsdeild spænska handknattleiksins. Barcelona hefur 14 stig eftir sjö leiki, er tveimur stigum á undan La Rioja og Granollers sem hafa leikið einum leik fleira.
- Orri Freyr Þorkelsson stóð að vanda fyrir sínu með Sporting Lissabon í gær þegar liðið lagði Vitória SC, 40:25, á útivelli í portúgölsku úrvalsdeildinni. Orri Freyr skoraði fjögur mörk í fimm skotum. Sporting er með 27 stig eftir 9 leiki, er stigi á eftir Porto og Benfica sem hafa leikið einum leik fleira.
- Stigagjöfin í portúgölsku úrvalsdeildinni er svolítið sérstök. Veitt eru þrjú stig fyrir sigur, tvö fyrir jafntefli og eitt fyrir að mæta til leiks, þótt liðið tapi viðureigninni.
- Katla María Magnúsdóttir skoraði þrjú mörk í 12 marka sigri Holstebro á Aarhus Håndbold, 28:16, á heimavelli í gær í næst efstu deild danska handknattleiksins. Þetta var níundi sigur Holstebro í deildinni. Liðið hefur átta stiga forskot í efsta sæti.
- Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Jón Ísak Halldórsson var ekki á meðal þeirra sem skoraði fyrir Lemvig er liðið lagði Norddjurs, 32:27, á útivelli í næst efstu deild danska handknattleiksins í gær. Lemvig er í 8. sæti með 9 stig eftir 10 leiki.
- Sveinn Jóhannsson skoraði ekki mark fyrir Chambéry þegar liðið vann Dijon, 30:28, í 9. umferð frönsku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld. Sveinn lék með í tæpar átta mínútur og var einu sinni vikið af leikvelli. Chambéry situr í sjötta sæti með 10 stig þegar nærri því öll lið deildarinnar hafa leikið níu sinnum.
- Bjarki Már Elísson skoraði ekki fyrir One Veszprém þegar liðið vann erkióvininn í ungversku úrvalsdeildinni, Pick Szeged, 32:31, í Szeged í gær. Janus Daði Smárason var ekki með Pick Szeged en sem kunnugt er hann frá vegna hnémeiðsla. One Veszprém er í öðru sæti deildarinnar með 14 stig eftir 7 leiki. Pick Szeged er efst með 15 stig en hefur leikið 10 leiki.
- Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
- Auglýsing -





