- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson var ekki með Wisla Plock í gær þegar liðið vann KPR Legionowo, 42:28, í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Viktor Gísli er ennþá frá vegna meiðsla í ökkla sem hann varð fyrir um hálfum mánuði.
- Wisla Plock er efst í deildinni með 63 stig eftir 22 leiki. Industria Kielce hefur 60 stig en á leik til góða á Wisla Plock. Gefin eru þrjú stig fyrir sigur í deildinni.
- Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði fjögur mörk í stórsigri FC Porto á Avanca á útivelli í portúgölsku 1. deildinni í í gær, 37:19. Leikið var á heimavelli Avanca. Um var að ræða framhald af viðureign liðanna sem hófst fyrir áramót en var frestað eftir nokkrar mínútur vegna þess að þak keppnishallarinnar míglak í rigningu.
- Porto er efst í deildinni þremur stigum á undan Sporting sem á leik til góða. Porto hefur lokið leikjum sínum en Sporting á inni leik við Povoa í dag. Eftir landsleikjahlé tekur við úrslitakeppni.
- Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk þegar lið hans Göppingen gerði jafntefli við Flensburg-Handewitt, 27:27, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Göppingen er í 14. sæti deildarinnar með 13 stig eftir 22 leiki. Flensburg er í fimmta sæti með 31 stig.
- Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon léku ekki með SC Magdeburg vegna meiðsla í 10 marka sigri á Eiseanch á útivelli, 36:26, í þýsku 1. deildinni í gærkvöld. Magdeburg er í sjötta sæti með 29 stig eftir 19 leiki. Liðið hefur leikið tveimur til þremur leikjum færra en önnur lið deildarinnar.
- TTH Holstebro, liðið sem Arnór Atlason þjálfar í dönsku úrvalsdeildinni, tapaði naumlega fyrir meisturum Aalborg Håndbold, 30:29, í gær. Leikið var í Álaborg. Holstebro var þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13, og var með yfirhöndina fram yfir miðjan síðari hálfleik. Eins og kom fram í gærkvöld á handbolti.is fékk Jesper Madsen dómari aðsvif í síðari hálfleik og kom ekkert meira við sögu.
- TTH Holstebro er í 10. sæti af 14 liðum deildarinnar með 19 stig þegar liðið á fimm leiki eftir óleikna.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm mörk, þar af tvö úr vítaköstum, í 12 marka sigri Kadetten Schaffhausen á Wacker Thun, 34:22, í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gær. Leikið var í Schaffhausen. Kadetten er lang efst í deildinni með 43 stig eftir 23 leiki. HC Kriens–Luzern er 13 stigum á eftir en á að vísu tvo leiki til góða.
- Janus Daði Smárason átti náðugan dag þegar Pick Szeged vann Eger, 37:26, í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær. Hann skoraði ekki mark í leiknum. Pick Szeged er í öðru sæti deildarinnar á eftir One Veszprém.
- Grétar Ari Guðjónsson varði eitt vítakast í góðum sigri Ivry, 32:30, á Créteil á heimavelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Ivry er ennþá neðst í deildinni. Liðið er með sjö stig eftir 19 leiki. Cesson-Rennes er næst fyrir ofan með 10 stig.
- Auglýsing -