- Auglýsing -
- Norska meistaraliðið Vipers Kristiansand mætir Rostov-Don í tvígang um næstu helgi í átta liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í handknattleik. Báðir leikirnir fara fram á heimavelli Rostov-Don í Rússlandi. Fyrri leikurinn verður skráður heimaleikur Vipers og vegna þess óskuðu forráðamenn liðsins eftir því við Rússa að áhorfendum verði ekki seldur aðgangur að þeirri viðureign. Stjórnendur Rostov-Don höfnuðu þeirri ósk og þar af leiðandi verða áhorfendur á báðum viðureignum liðanna en í Rússlandi er heimilt að selja áhorfendum aðgang að handboltaleikjum.
- Mette Tranborg meiddist í fyrri hálfleik þegar Danmerkurmeistarar Team Esbjerg töpuðu fyrir Herning-Ikast í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn í gærkvöld, 30:27. Ekki er útilokað að Tranborg taki ekki þátt í næstu leikjum af þessum sökum. Þetta var fyrsta tap Esbjerg í úrslitakeppninni og er liðið nú í öðru sæti í riðli eitt en í honum er fjögur lið. Köbenhavn Håndbold vann Silkeborg, 29:26, í hinni viðureign riðilsins í gærkvöld. Var þetta fyrsti sigur Kaupmannahafnarliðsins í þremur tilraunum í úrslitakeppninni. Herning-Ikast er í efsta sæti fyrstu riðils með sjö stig.
- Odense Håndbold sem ásamt Esbjerg náði bestum árangri í deildarkeppninni hefur hinsvegar ekki gengið vel það sem af er í riðli tvö í úrslitakeppninni. Odense er aðeins í þriðja sæti. Hinsvegar hafa fyrrverandi samherjar Theu Imani Sturludóttur landsliðskonu og núverandi leikmanns Vals í Århus United komið, séð og sigrað til þessa í riðli tvö í úrslitakeppninni og unnið tvo af þremur leikjum sínum. Fyrir vikið er liðið í efsta sæti eftir þrjá leiki, flestum að óvörum. Árósarliðinu var naumlega bjargað frá gjalþroti skömmu fyrir áramót.
- Finnsku meistararnir í Cocks eru komnir í úrslit um finnska meistaratitilinn í handknattleik karla eftir að hafa unnið GrIFK í þriðja sinn í undanúrslitum í gærkvöld, 26:14. Cocks mætir annað hvort BK-46 eða Dicken í úrslitum en einvígi tveggja síðarnefndu liðanna hefur ekki verið leitt til lykta. BK-46 stendur betur að vígi og getur gert út um rimmuna á laugardaginn í fjórðu viðureigninni. Dicken vann í gærkvöldi, 34:32, eftir framlengdan leik í Karis.
- Auglýsing -