- Vojvodina frá Novi Sad í Serbíu vann í gær Evrópubikarkeppni karla í handknattleik með því að leggja Nærbø, 25:23, í síðari viðureign liðanna í úrslitum. Leikið var í Noregi. Vojvodina vann einnig fyrri viðureignina sem fram fór fyrir viku, 30:23.
- Vojvodina er fyrsta serbneska félagsliðið í 22 ár sem vinnur eitt af Evrópumótum félagsliða í handknattleik karla. Evrópubikarkeppnin tók við af Áskorendakeppni Evrópu fyrir nokkrum árum. Nærbø vann Áskorendakeppnina fyrir ári.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði þrjú mörk fyrir PAUC þegar liðið tapaði fyrir Montpellier, 32:24, í síðasta leik næstu síðustu umferðar frönsku 1. deildarinnar í handknattleik karla. Montpellier situr í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir PSG sem hefur þegar unnið deildina. Nantes er í þriðja sæti með 48 stig.
- Örn Vésteinsson Östenberg skoraði eitt mark og átti aðeins eitt markskot í eins mark sigri TuS N-Lübbecke á HSG Konstanz á heimavelli, 30:29, í næst síðustu umferð þýsku 2. deildarinnar í gær. TuS N-Lübbecke er í fimmta sæti og hefur misst af möguleika á að flytjast upp í 1. deild að þessu sinni eftir fall úr efstu deild fyrir ári.
- Daníel Þór Ingason skoraði fjögur mörk í fimm tilraunum og átti eina stoðsendingu þegar lið hans, Balingen-Weilstetten, steinlá á heimavelli fyrir Eintracht Hagen, 34:27, í 2. deild þýska handknattleiksins í gær. Oddur Gretarsson var ekki í leikmannahópi Balingen-Weilstetten. Var þetta a.m.k. annar leikurinn í röð sem Oddur missir af.
- Balingen-Weilstetten hefur fyrir löngu tryggt sér efsta sæti deildarinnar og þátttökurétt á nýjan leik í 1. deild á næsta keppnistímabili. Balingen er sjö stigum á undan Eisenach og átta stigum ofar en Dessau-Roßlauer sem kljást um annað sætið. Ein umferð er eftir óleikin og fer hún fram á miðvikudaginn.
- Auglýsing -