Úlfar Páll Monsi Þórðarson verður leikmaður RK Alkaloid í Norður Makedóníu. Hann mun þegar hafa samþykkt tveggja ára samning við félagið, samkvæmt heimildum handbolta.is.
Handkastið sagði fyrst frá þessu hér á landi fyrir nokkru síðan en nú segir 24Rakomet í Norður Makedóníu að Úlfar Páll sé að koma til liðs við Evrópubikarmeistarana frá því í vor. Monsi á að koma í stað Frakkans Arnaud Bingo sem er á förum.
Monsi fer þar með frá Evrópubikarmeisturunum 2024, Val, til Evrópubikarmeistaranna 2025. Monsi verður um leið fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að semja við félagslið í Norður Makedóníu.
Bingo hefur verið hjá RK Alkaloid undanfarin tvö ár.
Handknattleikskappinn Kiril Lazarov er þjálfari RK Alkaloid samhliða því að vera þjálfari karlalandsliðs Norður Makedóníu. Lazarov var á sinni tíð einn af allra fremstu handknattleiksmönnum heims og lék lengi vel með Barcelona.
Talsverðar breytingar
Samkvæmt frétt 24Rakomet hafa sjö leikmenn gengið til liðs við RK Alkaloid í sumar. Monsi verður áttundi nýi liðsmaðurinn. Fjórir hafa róið á ný mið.
Auk þess að vinna Evrópubikarkeppnina í vor þá hafnaði RK Alkaloid í þriðja sæti efstu deildar í Norður Makedóníu.