- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mørk dregur sig í hlé frá landsliðinu – enginn bilbugur á Lunde, Herrem, Dale og Solberg

Nora Mørk t.v. ásamt Katrine Lunde markverði og samherja í landsliðinu til margra ára. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Norska handknattleikskonan Nora Mørk tilkynnti eftir sigur norska landsliðsins í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna á laugardaginn að hún ætli að taka sér ótímabundið leyfi frá landsliðinu. Mørk sagðist vera orðin slitin og þreytt líkamlega og verði að draga úr álagi. Hún sagði það koma í ljós með tíð og tíma hvort hún gefi kost á sér í landsliðið á nýjan leik. Frí frá landsliðinu sé hinsvegar algjör forsenda fyrir að geta haldið áfram að leika með félagsliði sínu, Esbjerg,  út samningstímann næstu tvö ár.

Næsta stórmót landsliða verður Evrópumótið sem fram fer í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi síðustu daga nóvember og fram eftir desember nk.

Mørk er 33 ára gömul og lék sinn fyrsta landsleik árið 2010. Alls eru landsleikirnir 189 og mörkin 895. Mörk hefur verið afar óheppin með meiðsli á ferlinum og m.a. slitið krossband oftar en einu sinni. Með norska landsliðinu hefur Mörk unnið fimm gullverðlaun á Evrópumótum, tvisvar heimsmeistaratitilinn og loks gullverðlaun á Ólympíuleikum á laugardaginn eftir að hafa hreppt bronsverðlaun á ÓL 2016 og 2021. 

Norski landsliðskonurnar léku frábæra vörn í úrslitaleiknum við Frakka á laugardaginn. Hér liggur Pauletta Foppa leikmaður franska landsliðsins í valnum. Ljósmynd/EPA

Halda ótrauðar áfram

Engan bilbug er hinsvegar að finna á Katrine Lunde og Camilla Herrem, tveimur elstu leikmönnum Ólympíumeistara Noregs. Þær segjast báðar ætla að gefa áfram kost á sér í landsliðið. Sömu sögu er að segja um Kari Brattset Dale. „Ég er með samning til næstu þriggja ára hjá Györ í Ungverjalandi,“ sagði Dale í samtali við VG sem hefur ekki í hyggju að rifa seglin með landsliðinu með hún er samningsbundin Evrópumeisturunum. 

Silje Solberg markvörður ætlar heldur ekki draga saman seglin, hvorki með landsliðinu né á félagsliðasviðinu. 

Stine Oftedal Bredal hefur hinsvegar leikið sinn síðasta kappleik. Bredal, sem hefur verið ein allra besti handknattleikskona heims síðasta áratuginn, ætlar að flytja til Kiel í Þýskalandi hvar unnusti hennar Runke Damke landsliðsmaður og leikmaður THW Kiel býr. Þau hafa verið í fjarbúð en Oftedal lék með Györ í Ungverjalandi síðustu sjö ár og vann m.a. Meistaradeild Evrópu í vor.

Ekki ný Stine

„Svona er lífið. Hún hefur fengið nóg og langar að gera eitthvað annað. Það kemur ekki ný Stine fram á sjónarsviðið. Í staðinn kemur annar leikmaður sem hefur eitthvað annað fram að færa sem getur verið mjög gott,“ sagði Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Ólympíumeistara Noregs í samtali við RÚV á laugardaginn um þá ákvörðun Oftedal að leggja árar í bát á handknattleiksvellinum eftir 14 ár með norska landsliðinu. Alls er landsleikir hennar 269 og mörkin 757.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -