Hassan Moustafa var endurkjörinn forseti Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, fyrir stundu. Moustafa, sem er 81 árs gamall og hefur verið forseti IHF í aldarfjórðung, fékk 129 atkvæði af 176, eða 73,3% í fyrstu umferð kjörsins þingsins sem haldið er í Kaíró í Egyptalandi.
Slóveninn Franc Bobinac fékk 24 atkvæði, 13,6%, Þjóðverjinn Gerd Butzek hlaut 20 atkvæði, 11,4%. Hollendingurinn Tjark de Lange fékk 3 atkvæði, 1,7%.
Moustafa verður þar með forseti IHF næstu fjögur ár, hið minnsta.
Kosning hans var öruggari en margir áttu von á en vonir einhverra stóðu til þess að til annarrar umferðar kæmi en Moustafa fór með öruggan sigur strax í fyrstu umferð.
Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem Moustafa er skoraður á hólm í forsetakjöri IHF.
„Kærar þakkir“
„Kærar þakkir til ykkar allra. Ég lofa að ég mun vinna dag og nótt að því að kynna íþróttina í öllum heimshornum. Við eigum sannarlega fallega íþróttagrein en við verðum að vinna saman,“ sagði Moustafa m.a. í þakkarávarpi eftir að hafa verið endurkjörin.
Tæknilegir örðugleikar
Þingið gekk ekki alveg eins og smurt. Tæknilegir örðugleikar komu upp áður en kosning til forseta hófst í morgun. Varð að gera matarhlé fyrr til þess stóð meðan biluninni var kippt í liðinn.
Einnig kvarta mótframbjóðendur yfir að hafa ekki setið við sama borð og Moustafa þegar kom að kynningu á frambjóðendum í gær.




