Igor Mrsulja leikur ekki með Víkingi í oddaleiknum við Fjölni á sunnudaginn í umspili Olísdeildar karla í handknattleik. Mrsulja var í dag úrskurðaður í eins leiks bann á fundi aganefndar HSÍ. Eins og vant er með úrskurði aganefndar þá taka þeir þegar gildi.
Mrsulja var útlokaður með skýrslu í leik í æsilega spennandi fjórða leik Fjölnis og Víkings í umspili Olísdeildar karla sem fram fór í Dalhúsum í gær.
Í úrskurði aganefndar segir m.a.: „Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:10 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.“
Oddaleikur Víkings og Fjölnis fer fram í íþróttahúsi Víkings í Safamýri á sunnudaginn og hefst klukkan 14.
Jón Bjarni slapp
Jón Bjarni Ólafsson leikmaður FH verður á hinn bóginn gjaldgengur með FH í öðrum leik liðsins við ÍBV þrátt fyrir að hafa verið útilokaður snemma leiks í gær í fyrsta undanúrslitaleik FH og ÍBV í Olísdeild karla.
„Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a). Með tilvísun til 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins. Aganefnd vekur þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar,“ segir í úrskurði aganefndar sem birtur var fyrr í dag.