- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Munum láta til okkar taka enda ekki skoðanalausar

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir t.v. og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir þjálfarar B-landsliðsins í handknattleik. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni og ánægjulegt að HSÍ hafi ákveðið að fá okkur Hröbbu með í þetta því við erum kannski ekki þær auðveldustu til að vinna með,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og hló þegar handbolti.is spurði hvernig það legðist í hana að taka við þjálfun B-landsliðs kvenna í handknattleik með Hrafnhildi Ósk Skúladóttur.

Greint var frá ráðningu þeirra inn í þjálfaratreymi kvennalandsliðsins í síðustu viku.

Viljum taka taka framfaraskref

„Við munum örugglega láta til okkar taka enda erum við með skoðanir á hlutunum. Um leið teljum við okkur geta lagt hönd á plóginn við að styrkja þá leikmenn sem eiga fyrir höndum að koma inn í A-landsliðið og eins við að hjálpa landsliðinu til þess að taka þau skref fram á við sem okkur öll langar til að það taki,“ sagði Anna Úrsúla ennfremur.

Búa yfir mikilli reynslu

Anna Úrsúla og Hrafnhildur Ósk búa yfir mikilli reynslu sem handknattleikskonur. Sú síðarnefnda á 170 landsleiki að baki og er ekki aðeins landsleikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi heldur einnig sú markahæsta.  Anna Úrsúla hefur leikið ríflega 100 landsleiki, þann síðasta í vor.

Leiðtogar

Báðar léku þær með landsliðinu sem tók þátt í EM 2010, HM 2011 og EM 2012 sem eru einu stórmótin sem A-landslið kvenna hefur verið þátttakandi á.  Til viðbótar eru þær margfaldir Íslands og bikarmeistarar og hafa sett sterkan svip á handboltann hér heima sem miklir leiðtogar. Einnig léku þær með félagsliðum á Norðurlöndunum um nokkurra ára skeið.

Innprentaður sigurvilji

„Við vitum hvað þarf til þess að komast inn á stórmót. Einnig erum við báðar með innprentað í hjartað sigurvilja, við höfum þá trú að við getum alltaf unnið. Ég tel það vera kost, ekki síst þegar maður kemur frá fámennu landi þar sem breiddin er minni og íþróttin er ekki stunduð í atvinnumennsku eins og sumstaðar í löndum í kringum okkur,“ sagði Anna Úrsúla ennfremur.

Gerist ekki á skömmum tíma

Anna Úrsúla segir ljóst að sú vinna sem framundan er við að byggja upp kvennalandsliðið eigi sér ekki stað á skömmum tíma. Verið sé að leggja af stað í lengra hlaup en svo. Hún segist trúa því að margir leikmenn séu að átta sig á því að þótt veruleg vinna sé að baki þá sé meira sem bíði.

Tími framfara er framundan

„Þess vegna er gott að fá æfingaviku núna í október og síðan æfingar og leiki í Tékklandi í lok nóvember. Eftir mjög erfiðan tíma síðan í mars í fyrra þá er ég viss um að komandi tímabil á eftir að skila okkur framförum með leikjum og æfingum landsliðsins í vetur og vonandi áfram í vor í lok keppnistímabils um mitt næsta ár með æfingaviku. Þannig getum við styrkt undirstöðurnar og náð okkur af stað á nýjan leik.

Flest er að falla í skorður á nýjan leik aftur. Þegar rútínan verður komin af stað aftur með æfingum, leikjum og ferðalögum þá styrkist hópurinn. Á því leikur ekki vafi í mínum huga,“ sagði Anna Úrsúla og undirstrikar að öll sú vinna sem ungir handknattleiksmenn leggi á sig skili sér. Hinsvegar séu ekki til neina flýtileiðir að árangri.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -