Frakkar, Spánverjar, Svíar og Ungverjar eru komnir með sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik eftir að keppni lauk í milliriðlum eitt og tvö í kvöld. Frakkar unnu Spánverja í hörkuleik í Kraká, 28:26, þar sem Frakkar sýndu styrk sinn á lokakaflanum.
Frakkar ljúka keppni í milliriðli eitt með 10 stig, Spánverjar átta. Slóvenar hafna í þriðja sæti með sex stig, Pólland fjögur, Svartfjallaland tvö og Íran er stigalaust.
Svíar lögðu Portúgala, 32:30, í Scandinavium í Gautaborg og hafa þar með unnið allar sex viðureignir sínar á mótinu eins og Frakkar. Portúgalar veittu hörkumótspyrnu enda gátu þeir með sigri tryggt sér annað sæti riðilsins og komist í átta liða úrslit.
Svíar eru með 10 stig í milliriðli tvö. Ungverjaland og Ísland með sex stig en Ungverjar hreppa annað sætið á sigri í innbyrðisleik við Ísland, 30:28. Portúgal er í fjórða sæti. Brasilía í fimmta og Grænhöfðaeyjar reka lestina án stiga.
Í átta liða úrslitum á miðvikudaginn mætast:
Frakkland – Þýskaland eða Noregur.
Svíþjóð – Danmörk eða Egyptaland
Spánn – Þýskaland eða Noregur.
Ungverjaland – Danmörk eða Egyptaland.
Þýskaland og Noregur mætast í uppgjöri efstu liðanna í milliriðli þrjú í Katowice annað kvöld. Noregur og Þýskaland eru jöfn að stigum fyrir síðasta leikinn.
Á sama tíma eigast við Danmörk og Egyptalandi í milliriðli fjögur í Malmö. Egyptar eru stigi fyrir ofan Dani.
HM 2023 – Milliriðlar, leikjadagskrá, staðan