Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, var heiðursgestur á landsleik Íslands og Ísraels í forkeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik á Ásvöllum í gær. Forseti skemmti sér vel eins og aðrir áhorfendur á leiknum. Hann lét sér ekki nægja að hvetja íslenska landsliðið til sigurs í leiknum heldur brá hann sér í hlutverk ljósmyndara í leikslok og tók góðfúslega í ósk þriggja kvenna um að smella mynd af þeim stöllum á síma einnar þeirra.
Eins og sjá má lifði forseti Íslands sig inn í hlutverkið og virtist hafa ánægju af, ekki síður en Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ sem fylgdist með sposkur á svip.
Vonandi hafa myndirnar heppnast vel og stöllurnar farið með góðar minningar heim af leiknum. Þeim og öðrum stendur til boða að mæta aftur á Ásvelli í dag og styðja við bakið á íslenska landsliðinu í síðari leik þess við Ísrael. Ókeypis aðgangur verður á leikinn í boði Arion banka og flautað til leiks klukkan 15.
Hafliði Breiðfjörð var einu sinni sem oftar á ljósmyndavakt fyrir handbolta.is á Ásvöllum í gær og náði þessum einstöku myndum af forseta Íslands í hlutverki ljósmyndara. Smellið á myndirnar til þess að sjá þær stærri.