Framarinn Reynir Þór Stefánsson lék sinn fyrsta A-landsleik í gær þegar íslenska landsliðið mætti og vann georgíska landsliðið í lokaumferð undankeppni EM karla í Laugardalshöll. Reynir Þór lét sér ekki nægja að leika fyrsta landsleikinn heldur skoraði hann fyrsta A-landsliðsmarkið á 52. mínútu leiksins í sinni fyrstu sókn. Reynir Þór fylgdi markinu eftir með öðru marki áður en viðureigninni var lokið.
„Snorri sagði mér þegar ég fór inn á völlinn að ef ég myndi ekki skjóta þá yrði ég ekki aftur valinn. Þannig að ég varð bara að kýla á þetta,“ sagði Reynir Þór léttur í bragði í samtali við handbolta.is.
Hér fyrir neðan er myndasyrpa Hafliða Breiðfjörð ljósmyndara þegar Reynir Þór skoraði sitt fyrsta mark.