Landslið kvenna í handknattleik, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, kom til Skopje í Norður Makedóníu rétt eftir hádegið í dag. Eftir að hafa komið sér fyrir hóteli í borginni dreif hópurinn sig út undir bert loft og tók létta æfingu til að ná úr sér ferðastrengjunum, að sögn Jóhanns Inga Guðmundssonar markvarðaþjálfara. Framundan eru þrír æfingaleikir á föstudag, laugardag og á sunnudag. Heimsmeistaramótið hefst á miðvikudaginn eftir viku.
Rjómablíða er í Skopje. Rúmlega 35 gráðu hiti og steikjandi sól tók á móti leikmönnum liðsins. Enginn saknar norðannæðingsins, enn sem komið er.
Allur farangur landsliðsins, sem er all nokkur, skilað sér með hópnum til Skopje öllum til mikillar gleði. Mörgum er eflaust í fersku minni þegar farangur U19 ára landsliðs kvenna var skilinn eftir á miðri leið til Rúmeníu í fyrra og kaupa varð nauðsynlegan æfingafatnað til að brúa bilið.
Á morgun hefst formlegur undirbúningur með hefðbundinni handboltaæfingu. Fyrsti æfingaleikurinn í Skopje verður við landslið Chile á föstudaginn.
Hér fyrir ofan eru nokkrar myndir sem Guðríður Guðjónsdóttir yfirfararstjóri smellti á úti æfingunni þegar ferðastrengirnir voru sendir veg allrar veraldar.
Sjá einnig:
Landsliðið er farið til Skopje – æfingamót og síðan HM