Pósturinn í Færeyjum er ekki af baki dottinn. Hann hefur gefið út tvö ný frímerki með myndum af leikmönnum færeysku landsliðanna og frændsystkinanna, Elias Ellefsen á Skipagøtu og Jana Mittún. Er þetta gert í framhaldi af frábærum árangri landsliðanna undanfarin ár og þess gríðarlega áhuga sem er fyrir handbolta í landinu.
Þetta er í fyrsta skipti sem handknattleikfólk er á frímerkjum í Færeyjum. Elias er 25 kr frímerki en Jana á 48 kr merki.

Miðarnir rjúka út
Ekki hefur opnun þjóðarhallarinnar, Við Tjarnir, í Þórshöfn orðið til þess að draga úr áhuganum. Miðar á fyrsta landsleik karlalandsliðsins í höllinni seldust upp á 10 mínútum, 3.000 miðar, og það stefnir í að uppselt verði á fyrsta heimaleik kvennalandsliðsins Við Tjarnir 9. apríl gegn Litáen. Á þriðja þúsund sætismiðar seldust fljótlega upp. Nokkrir stæðismiðar voru enn óseldir síðast þegar fregnaðist.
Ekki færri en 5.000 Færeyingar fylgdu karlalandsliðinu á EM 2024 í Þýskalandi og þeir skiptu mörgum hundruðum sem studdu kvennalandsliðið á EM í lok síðasta árs í Sviss.
Síðast voru um 1.000 Færeyingar í Hollandi á viðureign karlalandsliða Hollands og Færeyja í undankeppni EM karla um miðja þennan mánuð.
Þúsundir stefna til Óslóar
Þótt Færeyingar hafi ekki tryggt sér sæti í lokakeppni EM 2026 þá hafa hátt í 5.000 manns skráð sig á póstlista vegna ferða til Óslóar í lokakeppnina í janúar á næsta ári. Víst er að færeyska landsliðið mun verða í riðli í norsku höfuðborginni.
Smyril Line hefur til skoðunar að sigla með Færeyinga frá Þórshöfn til Óslóar á mótið. Lítið vantar upp á að færeyska landsliðið sé öruggt um sæti í lokakeppnina þegar tvær umferðir eru eftir.
Helstu áhyggjur Færeyinga lúta að miðasölunni í Ósló en óvíst er að þeim standi til boða að kaupa a.m.k. 5.000 aðgöngumiða á hvern leik á EM í keppnishöllinni í Ósló en hún mun rúma 8.500 áhorfendur. Keppnishöllin í Berlín, þar sem færeyska landsliðið lék á EM 2024, tók tvöfalt fleiri en sú sem keppt verður í í Ósló.