Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik kom til Skála í Skálafirði á Austurey Færeyja um miðjan daginn í dag eftir ferð frá Íslandi árla morguns. Á morgun mætast landslið Íslands og Færeyja í Höllinni í Skála í fyrri vináttuleik þjóðanna um helgina. Síðari leikurinn verður í Klaksvík á sunnudaginn og hefst klukkan 16.
Viðureignin í Skála á morgun flautuð á klukkan 17.
Ferðin gekk að óskum í dag og voru móttökur að vanda góðar hjá vinum okkar í Færeyjum. Æft var í Skála síðdegis og var ekki annað að sjá en að allir leikmenn væri tilbúnir í slaginn og fullir eftirvæntingar.
Viðureignir við Færeyinga eru liður í undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir leiki við landslið Ísraels í forkeppni HM 5. og 6. nóvember. Á svipuðum tíma mætir færeyska landsliðið Kósovó í tvígang í sömu keppni.