- Auglýsing -
Þorsteinn Leó Gunnarsson, stórskyttan unga og unglingalandsliðsmaður Aftureldingar, var fluttur á sjúkrahús undir læknishendur í kvöld eftir að hafa hlotið talsvert högg og slæma byltu eftir aðeins liðlega fimm mínútna leik á milli Aftureldingar og Gróttu í Olísdeildinni í handknattleik á Varmá í kvöld.
Raggi Óla, ljósmyndari, sendi handbolta.is myndir af atvikinu.
Þosteinn Leó stökk upp og skaut að marki Gróttu. Birgir Steinn Jónsson leikmaður Gróttu gekk harkalega út í Þorstein með þeim afleiðingum að hinn síðarnefndi fékk högg á andlitið og féll flatur til jarðar eins og segir í lýsingu á vísir.is. Vankaðist Þorsteinn við höggið. Eftir að hafa hlotið fyrstu aðhlynningu var hann færður af leikvelli.
Kallaður var út sjúkrabíll sem kom fljótlega og flutti Þorstein undir læknishendur á sjúkrahúsi, eftir því sem næst verður komist.
Birgir Steinn fékk rautt spjald og kom ekkert meira við sögu í leiknum.
Afturelding vann leikinn, 29:25. Fyrsti sigur liðsins í Olísdeildinni á leiktíðinni.
- Auglýsing -