Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ segir það mikla viðurkenningu fyrir HSÍ og íslenskt íþróttalíf að vera treyst fyrir að halda hluta heimsmeistaramóts karla í handknattleik í janúar 2031. Samvinna við Dani og Norðmenn skipti mjög miklu máli þar sem báða þjóðir eru þrautreyndar af sambærilegu mótahaldi í handbolta sem skilað hafa þjóðunum tekjum, ekki síst Dönum.
Lykilatriðin fyrir að að hlutirnir gangi upp hér á landi séu m.a. að þjóðarhöll fyrir 8.500 áhorfendur rísi í Laugardal og að hingað komi áhorfendur með þeim sjö landsliðum sem taka þátt í riðla- og milliriðlakeppninni hér á landi. Á núvirði er kostnaður við mótahaldið áætlaður nærri einum milljarði kr, sem nemur rúmlega tveggja ára veltu HSÍ.
Stolt fyrir af traustinu
„Fyrst og fremst það mikil viðurkenning fyrir HSÍ og íþróttasamfélagið á alþjóðlegum vettvangi að okkur sé treyst fyrir að halda heimsmeistaramótið ásamt Dönum og Norðmönnum. Við erum stolt af því sem hreyfing að vera treyst fyrir þessu mikla verkefni,“ segir Róbert Geir í samtali við handbolta.is
Róbert Geir segir að mikill munur verði á móthaldinu 2031 og því heimsmeistaramóti sem fór fram hér á landi 1995 sem reyndist lítill happafengur, utan vallar sem innan. Tapið af keppninni var myllusteinn um háls HSÍ a.m.k. áratug.
Þjóðarhöll skiptir öllu máli
„Einn megin munurinn er sá að nú verður ekki allt mótið haldið hér á landi heldur að takmörkuðu leyti. Með okkur verða Danir og Norðmenn. Auk þess þá er ný þjóðarhöll algjört lykilatriði í okkar áætlunum. Með henni á verkefnið að geta gengið upp.
Okkar áætlanir sem eru raunsæar gera ráð fyrir að með nýrri 8.500 manna þjóðarhöll að það verði uppselt á leiki Íslands í riðla- og milliriðlakeppninni. Þá á dæmið að ganga upp. Svo er það markmið okkar að fá fullt af fólki til landsins með hinum liðunum, fólk sem getur notið handboltans og þess sem landið býður upp.“
Breið pólitísk sátt
Róbert segir alveg ljóst að án nýrrar Þjóðarhallar, sem er á teikniborðinu, geti HSÍ ekki staðið við sinn hluta mótahaldsins sem er um fjórðungur þess. Engar keppnishallir hér á landi eru nærri því að standast þær kröfur sem gerðar eru til keppnishalla á heimsmeistaramótum. „Ný Þjóðarhöll er algjört lykilatriði í þessu dæmi. Við erum bjartsýnir á að hún verði að veruleika. Fyrir henni er breið þverpólitísk samstaða og án þeirrar vissu hefðum við aldrei lagt af stað í þetta verkefni,“ segir Róbert ennfremur.
Tíminn er fljótur að líða
Undirbúningur fyrir mótahaldið hófst með umsókninni og verður jafnt og þétt bætt í á næstunni. Róbert reiknar með að verkefnastjóri verði ráðinn í sumar sem haldi utan um verkefnið. „Þótt enn séu tæp sjö ár í að mótið fari fram þá er tíminn fljótur að líða. Svona viðburð þarf að skipuleggja vel og með góðum fyrirvara,“ segir Róbert.
Talsverðir tekjumöguleikar
Áætlanir HSÍ gera ráð fyrir að kostnaður á núvirði verði nærri einum milljarði króna. „Tekjumöguleikarnir eru einnig miklir, frá Alþjóða handknattleikssambandinu, auk áhorfendatekna og af auglýsingum. Við megum vera með nokkra opinbera styrktaraðila á mótinu. Hverjir þeir verða munum við vinna í samvinnu við Dani og Norðmenn sem halda mótið með okkur.“
Ekki á okkar borði
Róbert Geir er fullviss um að sjónvarpsmálin, sem voru eitt helsta bitbeinið á HM 1995 og skildi eftir háan reikning hjá HSÍ, verði ekki vandamál árið 2031. „Sjónvarpsrétturinn er í höndum Alþjóða handknattleikssambandsins og kemur ekkert inn á okkar borð.“
Nánar er rætt við Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóra HSÍ á myndskeiðinu efst í þessari frétt.