Buster Juul tryggði danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold jafntefli, 32:32, með umdeildu jöfnunarmarki í Kielce í Póllandi. Hann skoraði á síðustu sekúndubrotum leiksins. Forsvarsmenn pólska liðsins og pólskir fjölmiðlar fara hins vegar mikinn vegna marksins sem þeir telja hafa verið skorað eftir að leiktíminn var úti.
Reiðin beinist að hinum reyndu spænsku dómurum, Andreu Marín og Ignacio Garcia, sem hikuðu ekki við að dæma markið gilt án þess að leita af sér allan grun með aðstoð hinnar svokölluðu VAR-tækni
Ómögulegt er fyrir viðvaning eins og þann sem ritar þessi orð að greina hvort markið sé löglegt eða ekki en myndskeið af síðustu sekúndum er í samantektinni hér fyrir neðan. Síðustu sekúndur leiksins hefjast eftir 2,30 mínútur.
Pistlahöfundur pólsku sjónvarpsstöðvarinnar TVP sport fullyrðir í grein sinni að markið hafi verið ógilt og að boltinn hafi verið á miðri leið milli Juul og marksins þegar leiktíminn rann út. Birtir hann m.a. myndir máli sínu til stuðnings.



