Færeyska kvennalandsliðið í handknattleik tekur í fyrsta sinn þátt í lokakeppni Evrópumóts í handknattleik í lok þessa mánaðar. Fylgir kvennalandsliðið í fótspor karlalandsliðsins sem var með í fyrsta skipti á EM í upphafi þessa árs. Vakti færeyska landsliðið á EM mikla athygli jafnt innan vallar sem utan.
Mikil eftirvænting ríkir vegna þátttöku kvennalandsliðsins sem verður í D-riðli með Danmörku, Króatíu og Sviss. Leikið verður í Basel í Sviss. Fyrsti leikurinn verður gegn Sviss föstudaginn 29. nóvember. Reikna má með að fjöldi stuðningsmanna fylgi landsliðinu til Sviss og setji svip á leikina eins og á EM karla.
Færeyska handknattleikssambandið hefur útbúið auglýsingu fyrir landsliðið ásamt samstarfsfyrirtæki. Auglýsingin er hér fyrir neðan.