Ótrúleg uppákoma átti sér stað í viðureign Follo og Bergen í norsku úrvalsdeildinni í gær hvar menn eru þekktir fyrir yfivegun og góða siði. Í upphafi síðari hálfleik rann Nicolai Daling leikmaður Bergen-liðsins hressilega í skap. Hann tvínónaði ekki heldur stökk yfir auglýsingaskilti, réðist að áhorfenda, þreif af honum gjallarhorn og kastaði frá sér og inn á leikvöllinn. Auk þess virtist koma til snarpra orðaskipta.
Nokkurt uppnám varð vegna þessa en áhugavert er að dómararnir sneru blinda auga við þessu atviki. Leikmaðurinn fékk að halda áfram leik eins og ekkert hefði ískorist eftir að hann aðrir leikmenn höfðu róað sig niður.
Engum sögum fer af því hvort áhorfandinn með gjallarhornið hafi haldið uppteknum hætti með áhald sitt og skilaboð.
Danski handknattleiksáhugamaðurinn Rasmus Boysen birti myndskeið af atvikinu á Facebook-síðu sinni.