Glatt var hjalla í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í gærkvöld þegar ÍBV tryggði sér sæti í úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik með sigri á Haukum, 34:27, í fjórðu viðureign liðanna í undanúrslitum. Hvert sæti í íþróttahöllinni var setið og stemningin góð með tilheyrandi trommuslætti, hrópum og söng. Ekki dró úr henni eftir því sem á leikinn leið og staða ÍBV-liðsins inni á leikvellinum batnaði.
Eftir leikinn þá var sungið, faðmað og kysst eins sungið var hér um árið.
Auðvitað sameinuðust leikmenn og stuðningsmenn í sigurdansi í leikslok eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði sem handbolti.is tók ofan úr rjáfri íþróttahallarinnar.
ÍBV mætir Val í úrslitaleikjum um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrsta viðureignin verður fimmtudaginn 19. maí á heimavelli Vals, Origohöllinni.