Í dag eru 85 ár liðin síðan handknattleikur var fyrst leikinn á Ólympíuleikum en íþróttin var sýningargrein á leikum nasista í Berlín 1936. Fyrsta viðureignin var á milli Þjóðverja og Austurríkismanna og unnu þeir fyrrnefndu, 10:6.
Leikurinn fór fram, eins og aðrir handboltaleikir leikanna, á Ólympíuleikvanginum í Berlín að viðstöddum 100.000 áhorfendum.
Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem utanhúss handknattleikur hefur verið á dagskrá Ólympíuleikum. Leikið var á grasi og voru 11 leikmenn í hvoru liði, auk tveggja varamanna. Leiktíminn var tvisvar sinnum 30 mínútur.
Sex þjóðir sendu lið til leiks og fór svo að Þýskaland vann gullið. Austurríki varð í öðru sæti og Svíar hrepptu bronsið. Þar á eftir komu Ungverjar, Rúmenar og Bandaríkjamenn sem ráku lestina.
Utanhúss handknattleikur fór fram á völlum sem voru frá 90 til 110 metrar á lengd og frá 55 til 65 metrar á breidd. Mörkin voru af sömu stærð og þau sem voru og eru notuð í knattspyrnu.
Framan af síðustu öld fóru fram heimsmeistaramót í utanhúss handknattleik með reglubundnum hætti fram til ársins 1966. Þá hafði innanhúss handknattleikur að mestu tekið við. Ísland sendi aldrei lið til keppni á HM utanhúss.
Eftir Berlínarleikana var handknattleikur ekki aftur á dagskrá fyrr en þeir voru haldnir í München í Vestur-Þýskalandi 1972. Eingöngu var leikið í handknattleik karla innandyra í München 1972. Keppni í handknattleik kvenna var tekin upp á leikunum 1976 i Montréal í Kanada. Síðan hefur óslitið verið keppt í handknattleik á hverjum leikum.
Íslandi sendi lið til leiks á Ólympíuleikana í München 1972 og stóð um skeið til boða að senda karlalið til leiks á leikana 1976. Af ýmsum ástæðum varð ekkert úr þátttöku. Næst var Ísland með í handknattleik á leikunum í Los Angeles 1984. Eftir það tók landsliðið þátt í leikunum 1988, 1992, 2004, 2008 og 2012. Sælla minninga vann íslenska landsliðið silfurverðlaun 2008 er leikarnir voru haldnir í Peking.
Kvennalandslið Íslands hefur aldrei unnið sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikum.
Hér fyrir neðan er myndbútur af youtube frá viðureign Ungverja og Austurríkismanna í utanhúss handknattleik á Ólympíuleikunum í Berlín 1936.