Fram fékk á sig tvö rauð spjöld í viðureign sinni við ÍR í Olísdeild kvenna í handknattleik í Lambhagahöllinni á laugardaginn. Fyrra spjaldið fékk Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín þegar skot hennar sneiddi andlitið á Sif Hallgrímsdóttur markverði ÍR. Alfa var þegar komin með tvær brottvísanir þegar skot hennar strauk kinnina á Sif. „Hún er í grunnin óheppin,“ sagði Einar Ingi Hrafnsson sérfræðingur Handboltahallarinnar.
Hitt rauða spjaldið fékk Kristrún Steinþórsdóttir í síðari hálfleik. „Þarna mætti sunnlenskur styrkur,“ sagði Einar Ingi um brot Kristrúnar á Matthildi Lilju Jónsdóttur leikmanni ÍR.
Bæði brotin er að finna í myndskeiði hér fyrir neðan og umræðuna um þau sem fram fór í Handboltakvöldi í gærkvöld.