Upp úr sauð í vináttulandsleik Slóvena og Katarbúa í handknattleik karla í Slóveníu í kvöld en leikurinn var liður í undirbúningi liðanna fyrir heimsmeistaramótið í handknattleik sem hefst í næstu viku. Slóvenar verða með íslenska landsliðinu í riðli á mótinu.
Rúmlega sjö mínútum fyrir leikslok varð fjandinn laus þegar Katarbúinn Frankis Marzo sótti að vörn Slóvena. Hann fékk óblíðar viðtökur og brást harkalega við. M.a. sparkaði hann í slóvenskan varnarmann. Þá ætlaði allt um koll að keyra og hlupu varamenn inn á völlinn til þess að blanda sér í málið. Liðsfélagar Marzo náðu að koma félaga sínum úr hringiðunni og bjarga því sem bjargað varð.
Here we go😳🤯
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) January 7, 2025
It’s just escalated in the friendly between Slovenia and Qatar. Blue card for Frankis Marzo.
📹: RTV Slovenija #handball pic.twitter.com/70UvNcVicF
Meira að segja Veselin Vujovic, hinum þekkta skaphundi og landsliðsþjálfara Katar var nóg um, eins og sjá má myndskeiðinu sem tekið er af x-síðu danska handknattleiksmannsins Rasmus Boysen.
Marzo fékk rautt og blátt spjald, útilokun, þótt það dragi vafalaust ekki dilk á eftir sér þar sem um vináttulandsleik var að ræða þótt vissulega hafi verið grunnt á því góða í vináttunni inni á leikvellinum.
Slóveninn Blaz Janc fékk að kasta mæðinni í tvær mínútur eftir darraðardansinn.
Slóvenar unnu leikinn með átta marka mun, 38:30.