- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Myndskeið: Viktor Gísli bauð upp á sýningu

Viktor Gísli Hallgrímsson er efnilegasti markvörður heims um þessar mundir. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson bauð tæplega 6.000 áhorfendum í H-Arena í Nantes í kvöld upp á sýningu þegar lið hans Nantes vann Aalborg Håndbold með sjö marka mun, 35:28, í Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Viktor Gísli varði alls 21 skot, þar af þrjú vítaköst, og fékk á sig 27 mörk, 43,75% hlutfallsmarkvarsla. Kollegi hans Ivan Pesic spreytti sig á einu vítakasti en tókst ekki að koma í veg fyrir mark.

Tvö af þremur vítaköstunum sem Viktor Gísli varði voru frá Mikkel Hansen. Reyndar hvorugt þeirra sem getur að líta hér fyrir ofan.

Gaf strax tóninn

Viktor Gísli gaf tóninn strax í upphafi. Hann varði sex skot á fyrsta stundarfjórðungnum og var öðrum fremur maðurinn á bak við sjö marka forskot Nantes, 11:4. Viktor Gísli hélt uppteknum hætti það sem eftir var síðari hálfleiks og var með 13 skot varin þegar fyrri hálfleikur var á enda og Nantes með sex marka forskot.

Leikmenn Nantes geta þakkað Viktori Gísla öðrum fremur fyrir að liðið missti ekki leikinn út höndum sér þegar á leið síðari hálfleik. Góð forysta glutraðist niður fyrir slakan sóknarleik á löngum köflum eða góðan varnarleik Aalborg. Forskotið var komið niður í tvö mörk, 30:28, þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

Það reyndist vatn á myllu Nantes-liðsins á endasprettinum að sjö manna sóknarleikur Aalborg snerist upp í andhverfu sínu með þeim afleiðingum að franska liðið skoraði nokkrum sinnum í autt danskt mark.

Aron var allt í öllu

Aron Pálmarsson lék allan leikinn fyrir Aalborg og var án efa besti maður liðsins með fjögur mörk og að minnsta kosti annað eins af stoðsendingum. Mikkel Hansen virtist meiddur og tók ekki mikinn þátt í leiknum. Skarð var fyrir skildi hjá Aalborg að Svíanum Lukas Sandell var sýnt rautt spjald á 18 mínútu fyrir brot sem verðskuldaði aðeins tvær mínútur.


Nantes er í þriðja sæti B-riðils með 12 stig eftir átta leiki. Liðið er þremur stigum á eftir Barcelona sem trónir á toppnum. Aalborg er í fjórða sæti með sjö stig.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -