Víkingum tókst á ótrúlegan hátt að knýja fram sigur í viðureign sinni við Fjölni í Grill 66-deild karla í handknattleik í Víkinni í kvöld. Þeir voru fimm mörkum undir í hálfleik, 14:9, og tveimur mönnum færri síðustu mínútuna og um skeið þremur færri. Með klókindum og nokkurri heppni þá héldu Víkingar eins marks forskoti, 25:24, síðustu eina og hálfu mínútu leiksins og fögnuðu skiljanlega ákaft góðum sigri þegar flautað var til leiksloka.
Fjölnismenn gengu tómhentir og vonsviknir af leikvelli en geta vafalaust aðallega kennt sjálfum sér um þótt sumir hafi helst kennt dómurunum um þegar þeir gengu af leikvelli.
Víkingur og HK er þar með áfram efst og jöfn að stigum með 24 hvort eftir 14 leiki. HK vann Kríu örugglega í kvöld, 31:22.
Fjölnismenn voru sterkari í fyrri hálfleik. Þeir léku góða vörn og sóknarleikurinn var fínn. Liðið hafði verðskuldað fimm marka forskot í hálfleik, 14:9.
Víkingar í vígahug
Snemma í síðari hálfleik var ljóst að Víkingar voru í vígahug. Varnarleikurinn tók stakkaskiptum frá fyrri hálfleik. Um leið kviknaði á Sverri Andréssyni markverði sem varði allt hvað af tók. Fjölnismenn urðu stressaðir og gerðu hver mistökin á fætur öðrum. Víkingar jöfnuðu loks metin, 17:17, eftir ríflega 11 mínútna leik og komust yfir fljótlega á eftir, 18:17, með einu af fjórum mörkum Styrmis Sigurðssonar. Eftir það komst Fjölnir ekki yfir.
Þegar fjórar og hálf mínúta var eftir skoraði Víkingur sitt 25. mark og náði tveggja marka forskoti. Fjölni tókst að minnka muninn en jöfnunarmarkið lét á sér standa. M.a. átti Brynjar Óli Kristjánsson skot í stöng úr opnu færi þegar 15 sekúndur voru til leiksloka.
Rekistefna og greitt úr flækju
Talsverð rekistefna varð þegar ein mínúta og átta sekúndur voru eftir. Þá kom í ljós að Víkingar, sem átti að vera einum færri, höfðu leikið eina sókn og eina vörn með sjö menn. Þeir höfðu óvart bætt í liðið í kjölfar leikhlés sem tekið var skömmu áður. Nokkur hiti var í mönnum eins og vill verða við slík skilyrði. Dómurunum og bræðrunum, Ægi Erni Sigurgeirssyni og Sigurgeiri Sigurgeirssyni og eftirlitsmanninum Valgeiri Ómarssyni, virtist vera vandi á höndum að greiða út flækjunni sem upp var komin enda ekki tekið eftir aukamanni Víkinga.
Eftir miklar vangaveltur fékk Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, tveggja mínútna refsingu fyrir að senda dómurum tóninn þar sem þeir réðu ráðum sínum. Í framhaldinu var aukamanni Víkinga gerð tveggja mínútna refsing. Enn voru þá 12 sekúndur eftir af refsitíma þess sem upphaflega sat í skammarkróknum.
Víkingar hófu leik með fjóra menn en endurheimtu þann fimmta fljótlega. Með klókindum hins þrautreynda Arnar Inga Bjarkasonar tókst Víkingi að halda boltanum um nokkurt skeið. Kom þó að því að þeir töpuðu honum. Í framhaldinu fékk Brynjar Óli gott færi en skaut í markstöng Víkinga. Þær sekúndur sem eftir voru af leiktímanum tókst Víkingum að hanga á sigrinum eins og hundur á roði.
Mörk Víkings: Hjalti Már Hjaltason 5, Guðjón Ágústsson 5, Styrmir Sigurðsson 4, Egidijus Mikalonis 4, Jóhannes Berg Andrason 3, Logi Snædal Jónsson 3, Ólafur Guðni Eiríksson 1.
Mörk Fjölnis: Elvar Otri Hjálmarsson 6, Aron Ingi Heiðmarsson 5, Brynjar Óli Kristjánsson 3, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 3, Elvar Þór Ólafsson 2, Viktor Berg Grétarsson 1, Óðinn Freyr Hilmarsson 1, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 1, Jón Bald Freysson 1, Alex Máni Oddnýjarson 1.
Staðan í Grill 66-deild karla.