- Auglýsing -
- Auglýsing -

Náðum aldrei takti í sóknarleikinn

Ágúst Þór Jóhannsson og Gunnar Magnússon, landsliðsþjálfarar. Mynd/Kristján Orri - HSÍ
- Auglýsing -

„Sóknarleikurinn varð okkur að falli. Það var sama hvar var á lítið í sókninni, upp á alla þætti vantaði, þar á meðal agann. Við vorum sjálfum okkur verstir,“ sagði Gunnar Magnússon í samtali við handbolta.is eftir fimm marka tap íslenska landsliðsins fyrir Tékkum í undankeppni EM í handknattleik karla í Brno í gærkvöld, 22:17. A-landsliðið hefur ekki skorað færri mörk í leik í átta ár.

Takturinn og hraðinn var enginn

„Við vissum það fyrir leikinn að Tékkar myndu þétta á þeim svæðum þar sem okkar menn kæmu í árásir. Þá ætluðum við að nýta breiddina en því miður tókst það ekki. Við náðum aldrei takti í sóknarleikinn. Boltinn gekk ekki neitt manna á milli. Takturinn og hraðinn í sóknarleiknum var enginn. Við náðum okkur aldrei í gang sóknarlega,“ sagði Gunnar og var eðlilega vonsvikinn eftir þessa frammistöðu liðsins í fyrsta leik Gunnars og Ágústs Þór Jóhannssonar við stjórnvölin.


Fyrir utan það sem Gunnar nefndi að ofan þá bætti ekki úr skák sá aragrúi opinn færa sem Tomas Mrkva markvörður Tékka varði.

Sautján mörk á 60 mínútum

„Sautján mörk á 60 mínútum er ekki boðlegt, það segir sig sjálft,“ sagði Gunnar sem hefur skamman tíma til þess að snúa taflinu við. Næsti leikur verður á sunndaginn í Laugardalshöll og aftur á móti Tékkum.


„Tæknifeilar, slæm nýting á dauðafærum og alltof mikið hnoð í sóknarleiknum var það sem fór með leikinn af okkar hálfu. Allt flot vantaði í okkar leik,“ sagði Gunnar og bætti við.

Verðum að nýta tímann vel

„Við vitum hvað við getum. Það er margt sem hægt er að laga á skömmum tíma en við verðum að nýta tímann vel og bjóða upp á mikið betri frammistöðu á sunnudaginn. Það er hverjum manni ljóst,“ sagði Gunnar Magnússon ákveðinn í samtali við handbolta.is í Brno í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -