- Auglýsing -
Franska liðið Nancy, sem Elvar Ásgeirsson leikur með, er fallið úr 1. deild eftir átta marka tap fyrir Nantes, 32:24, í næst síðustu umferðinni sem lauk í dag. Nancy getur þar með ekki bjargað sér frá falli í lokumferðinni. Liðið hefur 11 stig en þriðja neðsta lið deildarinnar, Istres hefur 15 stig eftir sigur á Crétiel, 29:28. Nancy vann sér sæti í 1. deild fyrir ári og staldrar þar með stutt við.
Elvar skoraði tvö mörk fyrir Nancy í dag í næst síðasta leik sínum fyrir félagið en hann gengur til liðs við Ribe-Esbjerg í sumar.
Ásamt Nancy fellur lið Saran í 2. deild. Sæti þeirra taka US Ivry, sem Darri Aronsson gengur til liðs við í sumar, og Sélestat sem vann umspilskeppni 2. deildar í dag, lagði Cherbourg, 36:30, í úrslitaleik. US Ivry vann 2. deild með yfirburðum.
- Auglýsing -