- Auglýsing -
- Auglýsing -

Naumara gat það ekki verið

Patrekur Stefánsson KA-maður sækir vörn Hauka í kvöld. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Haukar komust í undanúrslit í kvöld eftir æsilega spennandi þriðja leikinn við KA í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik, 31:30, á Ásvöllum. Haukar mæta ÍBV í undanúrslitum. Fyrsta viðureignin verður á sunnudaginn á Ásvöllum.
Tæpara gat það ekki staðið eftir þrjá leiki á milli þessara liða en raun bar vitni um, 83:82.

Sigurglaðir Haukar. Mynd/J.L.Long


KA-menn áttu síðustu sókn leiksins og gátu jafnað metin og kreist út framlengingu en það vantaði nokkur augnablik upp á. Einar Birgir Stefánsson fékk opið færi á línunni og skaut framhjá. Það kom þó ekki að sök þar sem leiktíminn var úti.


Haukar voru fjórum mörkum yfir, 29:25, þegar átta mínútur voru til leiksloka og byrinn virtist með þeim. KA-menn neituðu að gefast upp og tókst að jafna metin, 29:29. Eftir það var stál í stál. Adam Haukur Baumruk skoraði sigurmarkið þegar 61 sekúnda var til leiksloka, eitt átta marka sinna og í einum besta leik sínum um talsvert skeið.


Annars var leikurinn að mörgu leyti endurtekning á tveimur þeim fyrri. Munurinn var lengst af eitt til tvö mörk á annan hvorn veginn allt þangað til Haukar komust fjórum mörkum yfir, 29:25, þegar átta mínútur eftir.

Óðinn Þór Ríkharðsson lék kveðjuleik sinn fyrir KA í kvöld. Hann skoraði níu mörk og var markahæstur. Óðinn Þór gengur til liðs við Kadetten Schaffhausen í Sviss í sumar. Mynd/J.L.Long


Baráttugleði KA-manna var til fyrirmyndar. Þeir játuðu sig aldrei sigraða og áttu möguleika á framlengingu allt þar til að flautað var til leiksloka.


Haukar verða að ná meiri stöðugleika í sinn leik fyrir rimmuna við ÍBV sem hefst á sunnudaginn.


Mörk Hauka: Adam Haukur Baumruk 8, Geir Guðmundsson 5, Heimir Óli Heimisson 4, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3/2, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Guðmundur Bragi Ástþórsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 2, Stefán Rafn Sigurmannsson 2/2, Ihor Kopyshynskyi 1, Gunnar Dan Hlynsson 1.
Varin skot: Stefán Huldar Stefánsson 12, 30,8%.

Mörk KA: Óðinn Þór Ríkharðsson 9/6, Patrekur Stefánsson 4, Ólafur Gústafsson 5, Arnór Ísak Haddsson 4, Arnar Freyr Ársælsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Allan Norðberg 2, Heimir Bolli Heimisson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 8, 22,2%.


Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -