Ísak Steinsson markvörður og félagar hans í norska liðinu Drammen HK töpuðu með eins marks mun í fyrri leiknum við gríska liðið Olympiakos, 36:35, í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. Leikið var í Ilioupolis í Aþenu en til stóð að leika í Chalkida nokkuð utan við Aþenu en ekkert varð úr.
Ísak stóð stóran hluta leiksins í marki Drammen, varði átta skot, 25%, og gerði betur en markverðir gríska liðsins.
Olympiakos, sem lék við Val til úrslita í Evrópubikarkeppninni síðasta vor og tapaði, var fimm mörkum yfir í hálfleik í gær, 21:16. Mest var forskot Olympiakos sex mörk í síðari hálfleik. Ísak og félagar sóttu hressilega í sig veðrið á síðustu 10 mínútum viðureignarinnar. Þeim tókst að jafna metin, 35:35. Hinn gamalreyndi Ivan Sliskovc skoraði sigurmark Olympiakos þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiktímanum.
Síðari viðureign liðanna verður í Aþenu á morgun, sunnudag.
Emil Magus Hansson skoraði átta mörk fyrir Drammen og var markahæstur. August Lind Oma var næstur með sex mörk. Nikolas Liapis gekk best að skora af leikmönnum Olympiakos, skoraði 12 mörk í 13 skotum. Gríski landsliðsmaðurinn Savvas Savvas skoraði í fimm skipti.