Ungversku liðin fara ekki vel af stað í Meistaradeild karla í handknattleik. Í gær tapaði One Veszprém fyrir Aalborg Håndbold og í kvöld beið Pick Szeged lægri hlut í viðureign við pólsku meistarana Wisla Plock í Szeged í Ungverjalandi, 34:33.
Janus Daði Smárason skoraði ekki mark fyrir Pick Szeged en átti hinsvegar þrjár stoðsendingar.
Viðureignin var jöfn og spennandi þótt leikmenn Wisla Plock hafi heldur verið með frumkvæðið í síðari hálfleik. Þeir voru hvað eftir annað tveimur mörkum yfir á lokakaflanum, 32:30, 33:31 og 34:32.
Mario Sostaric skoraði níu mörk fyrir Pick Szeged og Imanol Alustiza var næstur með sjö mörk.
Frakkinn Melvyn Richardson fór á kostum í sínum fyrsta leik með Wisla Plock í Meistaradeildinni. Hann skoraði 12 mörk í 16 skotum. Abel Guntín var næstur með fimm mörk.