Ókeypis aðgangur verður í boði DB Schenker á síðari Evrópuleik Hauka og rúmenska liðsins CSM Focsani sem fram fer á Ásvöllum á laugardaginn og hefst kl. 16. Eina skilyrði fyrir aðgangi verður að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi. Undanskildir verða þeir sem fæddir eru 2016 og síðar.
„Okkur finnst alveg nóg að fólk verði að aka 25 kílómetra til þess að fara í covidpróf svo við séum ekki að rukka það í ofanálag fyrir að koma á leik þar sem við megum ekki einu sinni selja því kaffi,” sagði Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, í samtali við handbolta.is í hádeginu.
Hvergi er mögulegt að fara í kórónuveirupróf annarstaðar en í Reykjavík sem er alveg hreint dæmalaust. Sem dæmi má nefna að fyrir 500 áhorfendur þýðir það samtals 12.500 km akstur að aka til Reykjavíkur og til baka til þess að fara í veiruprófið.
Þorgeir vonast til þess að stuðningsmenn Hauka svari kallinu, fjölmenni á leikinn og styðji við bakið á Haukaliðinu. Sem fyrr er stefnt á að vera með tvö 500 manna hólf á leiknum auk þess sem sérhólf verður fyrir yngri iðkendur innan Hauka.
Haukar töpuðu fyrri leiknum í Rúmeníu á síðasta laugardag, 28:26, og eiga þar af leiðandi góða möguleika á að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum með góðri frammistöðu og góðum stuðningi áhorfenda á leiknum á Ásvöllum á laugardaginn sem hefst klukkan 16.