Haukar töpuðu sínum fyrsta leik í Olísdeild karla í kvöld þegar þeir mættu Val í Schenkerhöllinni í 4. umferð. Í miklum baráttuleik voru Valsmenn sterkari í síðari hálfleik og unnu með þriggja marka mun, 28:25, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 13:12.
Afturelding er þar með áfram efst með sjö stig en Haukar og Valur hafa sex stig í öðru og þriðja sæti.
Valsmenn voru særðir eftir tapið í Vestmannaeyjum á laugardaginn, ekki síst vegna slakrar byrjunar á leiknum sem sennilega skýrðist að hluta til af sjóferðinni frá Þorlákshöfn til Eyja skömmu fyrir viðureignina. Hvað sem því liður þá komu leikmenn Vals vel vakandi inn í leikinn i Schenkerhöllinni í kvöld. Létu þeir það ekki á sig fá að vera án þriggja sterkra leikmanna, Róberts Arons Hostert, Þorgils Jóns Svölu Baldurssonar og Stivens Tobar Valencia sem allir voru á sjúkralista og sátu í stúkunni og fylgdust með leiknum.
Ólafur Ægir Ólafsson lék ekki með Haukum vegna veikinda og Jón Karl Einarsson, ungur og efnilegur piltur er meiddur.
Fyrri hálfleikur var svolítið stórkallalega leikinn, menn voru fastir fyrir og kraftaboltinn svolítið í algeymi. En ljóst var að Valur ætlaði ekki að tapa öðrum leik sínum í röð, amk ekki átakalaust. Taplausir Haukar gáfu heldur ekkert eftir. Þráinn Orri Jónsson fékk rautt spjald eftir um 20 mínútur, eftir klaufalegt brot. Þetta var annar leikurinn í röð þar sem Þráin er svo óheppinn að líta rauða spjaldið.
Valur var marki yfir í hálfleik, 13:12, eftir að nánast hafði verið jafnt á öllum tölum.
Valur tók forystuna í síðari hálfleik en sem fyrr einkenndist leikurinn af krafti og átökum. Gestirnir komust þremur mörkum yfir 19:16. Haukar vöknuðu af draumi sínum og jöfnuðu metin, 20:20, þegar 14 mínútur voru eftir af leiktímanum.
Valsmönnum tókst að slíta sig frá aftur og náðu þriggja marka forskoti, 25:22. Ekki síst var það að þakka Einari Baldvini Baldvinssyni markverði sem fleytti liðinu áfram á erfiðum kafla þegar nokkrar sóknir liðsins fóru forgörðum. Þremur mínútur áður en leiktíminn var úti höfðu Valsmenn náð fjögurra marka forystu, 27:23. Haukar reyndu að grípa til örþrifaráða s.s. með framliggjandi vörn og styttri sóknum síðustu tvær mínúturnar en það dugði ekki til. Valur fagnaði sigri í Schenkerhöllinni, 28:25.
Neistann vantaði í Haukaliðið sem m.a. sást best á því að það náði vart frákasti, hvorki í vörn né sókn.
Heimir Óli Heimisson, Brynjólfur Snær Brynjólfsson og Orri Freyr Þorkelsson skoruðu 5 mörk hver fyrir Hauka. Björgvin Páll Gústavsson varði 17 skot í markinu og var um 38%hlutfallsmarkvörslu.
Agnar Smári Jónsson og Magnús Óli Magnússon skoruðu 8 mörk hvor fyrir Val. Anton Rúnarsson skoraði sex mörk. Einar Baldvin varði 17 skot og var með 41,5% hlutfallsmarkvörslu. Hann var ekki síst drjúgur á síðasta stundarfjórðungi leiksins.