Dagur Gautason og liðsfélagar hans í ØIF Arendal fengu skell á heimavelli í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í gær þegar meistarar Elverum komu í heimsókn. Elverum vann með 19 marka mun, 37:18. Staðan í hálfleik var 18:9.
Dagur, sem gekk á ný til liðs við ØIF Arendal í sumar eftir dvöl hjá Montpellier í Frakklandi, skoraði fjögur mörk; tvö úr vinstra horni og önnur tvö eftir hraðaupphlaup.
Tryggvi Þórisson samdi við Elverum í sumar eftir þriggja ára veru í Svíþjóð. Hann skoraði ekki marki í sigrinum stóra í gær en er skráður með tvær stoðsendingar í bókhaldinu sem birt var eftir viðureignina.
Tryggvi og félagar halda nú til Spánar þar sem þeirra bíður leikur við Bathco Bm. Torrelavega á laugardaginn í síðari umferð Evrópudeildarinnar. Elverum vann fyrri viðureignina með 10 marka mun, 38:28.