Díana Dögg Magnúsdóttir og liðsfélagar í Blomberg-Lippe treystu stöðu sína í fjórða sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í kvöld með níu marka sigri á Leverkusen í Leverkusen, 31:22. Á sama tíma tapaði Bensheim/Auerbach fyrir meisturum Ludwigshafen, 37:25, og er fyrir vikið þremur stigum á eftir Blomberg Lippe.
Díana Dögg lét til sín taka að vanda. Hún skoraði tvö mörk, átti þrjár stoðsendingar, tvö sköpuð færi, vann eitt vítakast, nappaði boltanum af andstæðingnum í tvö skipti og vann tvö fráköst.
Hin íslenska landsliðskonan í herbúðum Blomberg-Lippe, Andrea Jacobsen, er því miður ennþá úr leik vegna ökklameiðsla sem hún varð fyrir á dögunum er hún misssteig sig á æfingu.
Leikmenn Blomberg-Lippe slá ekki slöku við þessa dagana. Framundan er ferð til Ungverjalands þar sem fyrir dyrum stendur leikur við Mosonmagyaróvár í annarri umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik á sunnudaginn. Blomberg-Lippe lagði Dijon frá Frakklandi, 35:30, á heimavelli í fyrstu umferð á laugardaginn var.
Staðan í þýsku 1. deildinni: