Hörður Fannar Sigþórsson og samherjar í KÍF frá Kollafirði færðust upp í þriðja sæti færeysku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í dag þegar þeir gerðu góða ferð í Skála og skelltu heimamönnum í STíF með níu marka mun, 32:23.
Leikmenn KÍF voru með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 14:12. Leiðir liðanna skildu fyrir fullt og fast í síðari hálfleik.
Hörður Fannar var einn þriggja leikmanna KÍF sem skoraði fimm mörk. Hann var einnig aðsópsmikill í vörn liðsins.
Neistin, sem Arnar Gunnarsson þjálfar, er sem fyrr efstur með 9 stig eftir fimm leiki. H71 er í öðru sæti með sex stig eftir fjóra leiki og Hörður Fannar og félagar hafa einnig sex stig en eiga sex viðureignir að baki. VÍF frá Vestmanna er í fjórða sæti með fimm stig.
VÍF mætir Team Klaksvík á heimavelli á morgun. Neistin sækir H71 heim í Hoyvikshöllina og verður þar sannkallaður toppslagur enda á ferðinni tvö bestu lið Færeyja um þessar mundir.