Einkennilegt atvik átti sér stað í síðasta leikhléi sem tekið var í viðureign Noregs og Portúgal á Evrópumóti karla í handknattleik þegar einn leikmanna portúgalska liðsins, Miguel Neves, gerðist njósnari. Hann lagði spjaldtölvu upp á að öðru eyra sínu og reyndi að hlera hvað þjálfari Norðmanna sagði við leikmenn sína. Leikhléið varð tekið 37 sekúndum fyrir leikslok í jafnri stöðu, 35:35.
Neves stóð úti á leikvelli innan um samherja sína meðan þjálfari portúgalska landsliðsins messaði yfir sínum mönnum. Portúgölum varð ekki kápan úr því klæðinu þegar á hólminn var komið. Þeim lánaðist ekki að bæta við marki og vinna leikinn sem lauk með jafntefli, 35:35.

Neves viðurkenndi fúslega eftir leikinn að hafa hlerað leikhléið. Þótti honum alls ekkert óeðlilegt við njósnirnar. Hann hafði viljað átta sig á því hvað Norðmenn hefðu í hyggju svo hægt yrði að bregðast við.
Telja verður sennilegt að njósnastarfssemin hafi verið með vitund landsliðsþjálfara Portúgal, Paulo Pereira.
Tengist Noregi
Neves lék í tvö ár í Noregi og á auk þess norska unnustu. Fyrir vikið segist hann hafa bærilega þekkingu á norsku til þess að stunda njósnir af þessu tagi.
Claus Møller Jakobsen handboltasérfræðingur TV2 segir að Handknattleikssamband Evrópu verði að bregðast við. Háttsemi Neves og portúgalska landsliðsins sé ekki í anda drenglyndis.

