- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nóg eftir af leiktíðinni til að snúa vörn í sókn

Leikmenn Selfoss fagna góðum sigri í KA-heimilinu skömmu fyrir síðustu jól. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það hefur reynt mjög mikið á okkur í vetur eftir að nokkrar breytingar urðu á hópnum fyrir leiktíðina. Í stað margra þeirra sem fóru treystum við meira á okkar heimastráka ásamt nokkrum reyndum með. Mikið hefur verið um meiðsli og veikindi sem hafa sett strik í reikninginn hjá okkur,“ segir Þórir Ólafsson þjálfari karlaliðs Selfoss sem rekur lestina í Olísdeildinni eftir 14 umferðir.

Æft vel – Ragnar með á ný

Þórir segir engan bilbug vera að finna á sér eða leikmönnum þrátt fyrir mótstreymi. Nóg er eftir að leiktíðinni til þess að snúa vörn í sókn. Góður hugur er í leikmönnum sem hafa æft mjög vel síðustu vikur meðan keppni lá niðri í Olísdeildinni. M.a. er Ragnar Jóhannsson búinn að æfa með liðinu að undanförnu. Með honum kemur meiri reynsla inn liðið en hann var frá keppni fyrir áramót vegna meiðsla.

Betur má ef duga skal

„Við náðum aðeins að þétta raðirnar fyrir áramótin og ná í nokkur stig en betur má ef duga skal. Við erum ekki hættir þrátt fyrir að hafa verið í brekku,“ sagði Þórir sem og bætti við að enn geti Selfossliðið náð markmiðum sínum sem sé að komast í undanúrslit í Poweradebikarnum og ná sæti í úrslitakeppninni í vor.

Þéttur pakki

„Við getum alveg staðið í liðunum fyrir ofan okkur, Víkingur, Grótta, KA, HK og Stjarnan, svo dæmi séu tekin. En þetta er orðinn þéttur pakki í neðri hlutanum og réttu úrslitin verða að falla með okkur. Því miður þá höfum við tapað stigum til þessa sem við vorum með augastað á. Við verðum bara að ná í þau stig annarstaðar í næstu leikjum. Enn eru átta leikir eftir í deildinni, sextán stig,“ sagði Þórir.

Erfitt að fara yfir heiðina

Fyrir leiktíðina var reynt að sækja liðsstyrk austur á Selfoss. Þórir segir það hafa reynst þrautin þyngri. „Það er erfitt fyrir menn af höfuðborgarsvæðinu að koma yfir heiðina og til okkar. Menn bökkuðu út. Eins skoðuðum við erlenda leikmenn sem ekki féllu að þeim hugmyndum sem við vorum með. Við verðum bara að sjá til eftir tímabilið hver niðurstaðan verður hjá okkur,“ sagði Þórir Ólafsson þjálfari Selfoss í samtali við handbolta.is á dögunum.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -