„Ég bjartsýnn á að okkur gangi vel að vinna í okkar málum. Það var fínn punktur að skipta um aðstæður, taka upp þráðinn á nýjum stað,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í gær eftir komuna til Kölnar eftir vikudvöl í München.
Framundan er viðureign við Þjóðverjar í fyrstu umferð milliriðlakeppni EM í kvöld. Aron segist telja að landsliðsmenn hafi nýtt tímann vel á milli leikja til þess að hugsa sinn gang eftir leikina þrjá í riðlakeppninni, ekki síst þann við Ungverja í fyrrakvöld sem tapaðist illa.
Aron segir það vera eitt þeirra atriða sem velta megi fyrir sér hvort leikmenn skorti upp á sjálfstraust. „Við höfum gert mjög mörg mistök sem hver og einn verður að velta fyrir sér hvað hann getur gert til þess að vinna bug á þessu. Menn verða kafa aðeins dýpra. Ég vona að menn hafi nýtt tímann til þess. Leitað inn á við og spurt hvernig þeir geti gert hlutina betur,“ sagði Aron sem hlakkar til leiksins við Þjóðverja í kvöld.
Geggjuð stemning – full höll
„Það verður geggjuð stemning, troðfull höll, 20 þúsund manns. Pressan verður öll á þýska liðinu. Við erum nokkrir sem kunnum vel við okkur í þessari höll,“ sagði Aron sem margoft hefur leikið í Lanxess Arena, t.d. í úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar en einnig með íslenska landsliðinu sem mætti Þjóðverjum síðast í Lanxess-Arena á HM 2019.
Lengra hljóðritað viðtal við Aron er að finna hér fyrir neðan.