Norska landsliðið tók það sænska í kennslustund í fyrstu umferð milliriðlakeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik og vann með 13 marka mun, 39:26, í Westfalenhalle í Dortmund. Fyrri hálfleikurinn var hrein niðurlæging fyrir sænska landsliðið. Evrópu- og Ólympíumeistarar Noregs léku eins og þeir best geta. Forskotið var 13 mörk, 24:11, eftir 80% skotnýtingu. Ekki stóð steinn yfir steini hjá Svíum.
Norska liðið slakaði aðeins á klónni í síðari hálfleik en það breytti engu um úrslitin. Sænska liðið bar ekki sitt barr í síðari hálfleik eftir útreiðina og stendur tæpt að vígi þegar litið er til þátttökuréttar í átta liða úrslitum.
Ingvild Bakkerud og Henny Reistad skoruðu sex mörk hvor yfir norska landsliðið. Clara Lerby var atkvæðamest í sænska landsliðinu með fimm mörk.
Í sama riðli, þ.e. milliriðli fjögur, vann Brasilía landslið Suður-Kóreu, 32:25, og hefur sex stig eins og norska landsliðið
Tékkland tapaði fyrir Angóla, 28:25. Angóla hefur þar með fjögur stig í þriðja sæti og mætir Brasilíu á föstudag og Svíum á sunnudag.




