- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nú er bara að ísbaða sig í gang aftur

Steinunn Björnsdóttir í glímu við varnarmann úkraínska landsliðsins í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


„Mér líður mjög vel yfir að vera komin með fyrsta sigurinn á EM og taka þátt í að skrifa sögu. Stórkostlegt að fá tækifæri til að taka þátt í þessu,“ sagði Steinunn Björnsdóttir landsliðskona í handknattleik sem sló ekki slöku við frekar en fyrri daginn þegar íslenska landsliðið vann Úkraínu í kvöld, 27:24, í riðlakeppni EM í Innsbruck. Íslenska landsliðið vann sinn fyrsta sigur í sögunni í lokakeppni EM og fær þar með úrslitaleik við Þýskaland um sæti í milliriðli á þriðjudagskvöld.


„Enn og aftur er ég pínu meir yfir að vera hérna og fá tækifæri til þess að taka þátt í þessu öllu saman,“ bætti Steinunn við sem er þrátt fyrir langan landsliðsferil að taka þátt í lokakeppni stórmóts í fyrsta sinn á ferlinum.

Spurð um muninn á milli fyrri og síðari hálfleiks en íslenska liðið gaf nokkuð eftir í þeim síðari sagðist Steinunn vera eiginlega nokk sama úr því sem komið var. Sigurinn er fyrir öllu.

„Það var vissulega smá bras í síðari hálfleik. Það tók á að leika gegn þeim sjö í sókninni stóran hluta leiksins ofan á langar sóknir. Þær náðu að keyra niður hraðann og að sama skapi tókst okkur ekki að leika þann hraða leik sem við vildum leika,“ sagði Steinunn ennfremur.

Verður verðugt verkefni

Steinunn sagði eftirvæntingu ríkja fyrir úrslitaleik við Þýskaland á þriðjudagskvöld.

„Nú er bara að ísbaða sig í gang aftur og vera klár í slag. Það verður verðugt verkefni að mæta Þjóðverjum en við munum að sjálfsögðu ekki gefa neitt eftir,“ segir Steinunn Björnsdóttir.

Nánar er rætt við Steinunni í myndskeiði í þessari frétt.

EM kvenna ”24 – leikjadagskrá, riðlakeppni

A-landslið kvenna – fréttasíða

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -