- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Nú er að láta kné fylgja kviði“

Það verður í mörg horn að líta í oddaleik Hauka og KA á Ásvöllum í kvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Að baki eru tveir hörkuleikir á milli liðanna. Ég á ekki von á öðru en framhald verði á og að bæði lið selji sig dýrt í kvöld,“ sagði Aron Kristjánsson þjálfari Hauka sem mæta KA í oddaleik á Ásvöllum í kvöld í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik. Tapliðið verður komið í sumarleyfi að leikslokum.


„Bæði lið leggja mikið upp úr sterkum varnarleik. Við munum leggja áherslu á að bæta eitt og annað sem betur mátti fara í síðasta leik sem fram fór á mánudaginn. Sérstaklega varðandi sóknarleikinn. Maður er alltaf í eilífri baráttu við að gera betur,“ sagði Aron ennfremur en flautað verður til leiks á Ásvöllum klukkan 19.30 í kvöld.

Verðum að eiga mjög góðan leik

„Skákin okkar á milli heldur áfram í þessu hörku einvígi. Sem betur fer erum við komnir aftur á Ásvelli. Nú er að láta kné fylgja kviði. Ekki viljum við tapa öðru sinni á heimavelli í úrslitakeppninni,“ sagði Aron og bætti við að menn gerðu sér grein fyrir að þótt komið væri á heimavöll þá yrði mótstaða KA-manna öflug eftir sem áður. „KA hefur á að skipa mjög góðu liði. Víst er að við verðum að leika mjög góðan leik til þess að vinna.“

Allir fórna sér í oddaleik

Aron sagði leikmannahópinn vera klárann í slaginn þótt eitt og annað sé að hrjá menn. „Við höfum glímt við hitt og annað um talsverðan tíma og sumir hafa haldið betur en við héldum meðan aðrir eru tæpari. Þegar komið er út í oddaleik þá fórnar hver einasti maður sér. Þannig er það bara,“ sagði Aron.

Búist við fjölmenni á Ásvöllum

Aron sagði umgjörð leiksins verða með hefðbundnum hætti enda liggi metnaður Hauka meðal annars í því að hafa hana eins og best verður á kosið. Búist er við að fjölmenni verði á Ásvöllum, því rúmgóða íþróttahúsi.


„Menn eiga að finna það þegar komið er á Ásvelli að það er stendur leikur fyrir dyrum. Við munum opna snemma og selja hamborgara og aðrar veitingar. Leikmenn liðanna sjá svo um að skemmta áhorfendum,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka í samtali við handbolta.is rétt fyrir hádegið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -