- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nútíðin er handbolti en framtíðin stjarneðlisfræði

Hafdís Renötudóttir, markvörður, stendur í marki Fram á næsta keppnistímabili. Mynd/Facebook-síða Fram
- Auglýsing -

„Það var skammur aðdragandi að þessum vistaskiptum,“ segir Hafdís Renötudóttir, landsliðsmarkvörður í handknattleik er handbolti.is sló á þráðinn til hennar í hádeginu. Í morgun var tilkynnt að Hafdís væri búin að skrifa undir samning við sænska úrvalsdeildarliðið Lugi frá Lundi. Hafdís yfirgefur þar með Fram eftir eins árs veru.


Hafdís fékk heilahristing síðsumars. Hún hefur þess vegna ekkert leikið með Fram á leiktíðinni. Hafdís segir heilahristinginn og þá óvissu hvenær hún geti byrjað að leika á ný engu hafa breytt um áhuga forráðamanna Lugi að klófesta sig. Hún hafi afþakkað fyrst þegar félagið hafði samband fyrir nokkrum vikum.

Afþakkaði í upphafi


„Þeir gáfu sig ekki og eftir að ég hafði gert forrráðamönnum Lugi grein fyrir að ég stigi ekki inn á völlinn á ný fyrr en ég fengi leyfi til þess hjá sjúkraþjálfara kom í ljós að áhugi þeirra var samur. Þeir sögðust vilja fá mig út í lok október. Ef ég yrði ekki tilbúin til að æfa og spila á þeim tíma þá fengi ég bara þann tíma sem nauðsynlegur væri til að jafna mig, kynnast samherjunum og koma mér fyrir á nýjum stað. Ég ákvað að slá til,“ segir Hafdís sem gerir samning við Lugi út leiktíðina vorið 2022.


Lugi er eitt af fjórum rótgrónum kvennaliðum í sænsku úrvalsdeildinni. Liðið keppir um titla á hverju ári og er þekkt fyrir að hafa sterka leikmenn. Hafdís þekkir vel til í sænska handboltanum en hún lék með Boden keppnistímabilið 2018/2019.

Ætlað stór hlutverk hjá Lugi

Lugi er eitt af fjórum bestu liðum Svíþjóðar í kvennaboltanum ásamt Skuru IK, Höörs HK U65 og IK Sävehof. „Stjórnendur Lugi ætla mér það hlutverk að vera aðalmarkvörður þess sem er að mínu mati mjög spennandi að komast í það hlutverk hjá toppliði,“ segir Hafdís.


Lugi er án stiga eftir tvo fyrstu leikina og hefur m.a. tapað fyrir Höörs. „Eins og staðan er núna þá er markvörður liðsins 18 ára og lítt reynd.”

Endurhæfing gengur betur


Hafdís á pantað flug út 23. október. Þangað til heldur hún endurhæfingu áfram hér á landi. „Ég sé engin ljón í veginum í endurhæfingunni í augnablikinu. Fyrir tveimur vikum kom bakslag en eftir það hefur sífellt gengið betur. Í gær hljóp ég í 20 mínútur og tók intervalæfingar. Í dag finn ég ekki fyrir eftirköstum svo væntanlega er ég komin inn á beinu brautina,“ sagði Hafdís sem hlakkar mjög til að takast á við sænska sóknarmenn.

„Það verður spennandi að sjá til hvort ég kemst út undir lok mánaðarins vegna kórónuveirunnar. Ég er að taka áhættu með þessum samningi en ég býst ekki við öðru en að allt gangi upp og að mér gangi vel þegar út á völlinn verður komið.“

Þakklát Fram

Hafdís segist þakklát fyrir síðasta ár hjá Fram þar sem allt gekk að óskum innan vallar þar til kórónuveiran bankaði upp á í mars og keppni var slaufað. „Ég hef fulla trú á Fram-stelpunum og vona að þeim gangi mjög vel á keppnistímabilinu sem er nýlega hafið.


Eins er ég bjartsýn á að ég sé að taka rétt skref og allt gangi upp hjá mér utan vallar sem innan hjá Lugi. Ég er ánægð með liðið, leikmennina og þjálfarann og hvernig liðið spilar. Sóknarleikurinn er hraður og varnarleikurinn hentar mér mjög vel, vonandi verður vörnin jafn góð og hjá Fram á síðasta tímabili.“

Draumurinn lifir enn

Hafdís lætur sig enn dreyma um nám í stjarneðlisfræði en þeim draum sagði hún blaðamanni handbolta.is frá fyrir nokkrum árum í viðtali á öðrum fjölmiðli og Hafdís lék með öðru félagi fjarri heimahögum.

„Því miður þá er ekki hægt að læra stjarneðlisfræði með góðu móti í fjarnámi en ég stefni enn á það nám. Þangað til að af stjarneðlisfræðinámi kemur ákvað ég að læra eitthvað eitthvað annað og legg nú stund á háskólanám í ensku í fjarnámi. Ég er að taka eitt stykki flippgráðu í háskólanum meðan ég er í atvinnumennsku í handbolta. Ég er næstum hálfnuð. Stefnan er að koma út úr atvinnumennsku í handbolta eftir nokkur ár með að minnsta kosti eina háskólagráðu. Síðan kemur röðin að stjarneðlisfræðinni,“ segir Hafdís Renötudóttir, 23 ára landsliðsmarkvörður í handknattleik og verðandi leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Lugi HF.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -