Leikbrot Ásgeirs Snæs Vignissonar leikmanns Víkings í leik við Fjölni í Grill 66-deild karla á síðasta föstudag er til sérstakrar skoðunar hjá aganefnda HSÍ. Málið verður tekið fyrir á næsta fundi aganefndar á morgun, miðvikudag.
Málið er eitt það fyrsta, ef ekki það fyrsta, sem ný málskotsnefnd HSÍ, sendir til aganefndar.
Málskotnefnd var sett á laggirnar í upphafi mánaðarins. Nefndin leysir af hólmi rétt sem framkvæmdastjóri og stjórn hafði áður til að vísa málum til aganefndar. Sneru þau mál aðallega að atriðum sem talin voru geta skaðað ímynd handknattleiksíþróttarinnar.
Málskotsnefnd hefur eftirlit með handknattleiksleikjum sem fram fara á Íslandi og getur á grundvelli sérstakra heimilda skotið málum til aganefndar HSÍ í aga- og/eða kærumálum.