- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýir siðir með nýjum mönnum hjá Fram

Einar Jónsson tók við þjálfun Fram í sumar. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Einar Jónsson tók við þjálfun karlaliðs Fram í sumar eftir að hafa verið við þjálfun í Færeyjum og í Noregi undanfarin tvö ár. Einar þekkir vel til í herbúðunum í Safamýri. Hann þjálfaði kvennalið félagsins um langt árabil og tók við síðan við þjálfun karlaliðsins og undir hans stjórn varð Fram Íslandsmeistari 2013. Síðan hefur Fram ekki unnið Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki.


Einar flutti heim í vor og tók til óspilltra málanna í Safamýri í sumar enda staðráðinn í að stuðningsmenn Fram sjái fingraför hans sem fyrst á liðinu sem hefur ekki verið í hópi allra efstu liða Olísdeildar undanfarin ár.

Unnið að breytingum

„Við munum leika talsvert öðruvísi handknattleik á komandi vetri en Framliðið gerði á síðasta tímabili. Eftir að ég tók við störfum þá höfum við unnið í ákveðnum breytingum. Það á síðan eftir að koma í ljós hvernig til tekst þegar liður á keppnistímabilið,“ sagði Einar í stuttu spjalli við handbolta.is á Selfossi um síðustu helgi eftir að Fram hafði hafnað í öðru sæti á árlegu Ragnarsmóti þar í bæ.

Hefur aðrar áherslur

„Það segir sig sjálft að með nýjum mönnum verða alltaf einhverjar breytingar. Það væri til lítils að skipta um þjálfara ef menn ætluðu að halda áfram þar sem frá var horfið,“ sagði Einar sem vildi lítið segja í hverju þessa breytingar felist. Spurður hvort þær verði svo miklar að hinn almenni áhorfandi á kappleikjum verði þeirra var svaraði Einar: „Ef hann hefur eitthvað vit á handknattleik þá verður hann var við þær. Um er fyrst og fremst að ræða atriði sem ég legg áherslu á sem þjálfari,“ sagði Einar ákveðinn eins og hans er von og vísa.

Þjálfari í meistaraflokki í 15 ár
Einar er þrautreyndur þjálfari jafnt með yngri sem eldri. Hann var þjálfari kvennaliðs ÍBV 2006/2007, kvennaliðs Fram 2007-2012, karlaliðs Fram 2011-2013, kvennaliðs Molde í Noregi 2013-2015, karlaliðs Stjörnunnar 2015-2018, karlaliðs Gróttu 2018/2019, hjá karla- og kvennaliði H71 í Færeyjum 2019-2020 og karlaliði Bergsøy í Noregi 2020/2021. Einnig var Einar þjálfari yngri landsliða kvenna um skeið og aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna 2011-2016. Einar varð bikarmeistari með kvennaliði Fram 2010 og 2012, Íslandsmeistari karla 2013 og færeyskur bikarmeistari karla og kvenna 2020 svo það helsta sé tínt til. 

Einn úr gullliðinu til aðstoðar

Síðustu vikur hafa gengið vel að mati Einars sem heldur ótrauður áfram við að móta Framliðið ásamt aðstoðarmanni sínum, Haraldi Þorvarðarsyni sem var einn leikmanna meistaraliðs Fram 2013 undir stjórn Einars.

Horfir vonglaður fram veginn

„Ég er mjög ánægður með undanfarna daga. Við notuðum tækifærið í kringum Ragnarsmótið og voru hér á Selfossi í æfinga- og keppnisferð. Auk leikjanna þá æfðum við þétt og reyndum um leið að hrista hópinn saman félagslega um leið. Áður vorum við á Akureyri í æfinga- og keppnisferð sem gekk afar vel. Þótt það hafi kannski ekki sést á öllum leikjum okkar í Ragnarsmótinu þá hefur gengið hjá okkur á undirbúningstímanum. Við erum afar ánægðir með á hvaða stað liðið er um þessar mundir og horfum vonglaður fram veginn,“ sagði Einar.

Eftirsjá að Andra Má

Fram varð fyrir blóðtöku á dögunum þegar Andri Már Rúnarsson samdi við þýska 1. deildarliðið Stuttgart. Andri Már var markahæsti leikmaður Fram á síðasta tímabili og einn allra besti leikmaður liðsins. „Vissulega er mikil eftirsjá að Andra sem var markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili og við ætluðum stórt hlutverk hjá okkur. En við samgleðjumst honum að fá þetta frábæra tækifæri. Ég veit að Arndri á eftir að standa sig í Þýskalandi enda hrikalega flottur leikmaður.“

Endurheimtu Framara

Einar segir að nokkur ný andlit séu kominn inn í æfingahópinn. Einn þeirra Stefán Arnarson lék með U-liðinu á síðasta tímabili. Aðrir er m.a. Kjartan Júlíusson og Reynir Stefánsson sem eru enn í þriðja flokki. Til viðbótar hafa Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Kristófer Andri Daðason flutt heim á ný eftir veru í öðrum liðum. „Það er mjög gott fyrir félagið að fá Framara heim á nýjan leik og nokkuð sem við viljum leggja áherslu á,“ sagði Einar Jónsson þjálfari karlaliðs Fram.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -