Eftir því sem næst verður komist þá verður ekki dregið í nýja töfluröð í Olísdeild karla þótt lið Kríu hafi helst úr lestinni og Víkingar taki sæti í deildinni í stað Kríu eins og tilkynnt var í gærdag.
Þar af leiðandi munu nýliðarnir úr Víkinni fá ÍBV í heimsókn í fyrstu umferð Olísdeildar fimmtudaginn 16. september gangi núverandi leikjadagskrá deildarinnar eftir en hún er skiljanlega sögð í vinnslu á heimasíðu HSÍ. Þar af leiðandi ber að taka hana með fyrirvara, alltént varðandi leiktíma og leikdaga sem kannski verður eitthvað hnikað til.
Viku síðar halda Víkingar norður yfir heiðar og sækja KA-menn heim í KA-heimilið fimmtudaginn 23. september og fá Íslandsmeistara Vals í heimsókn í Víkina í þriðju umferð sunnudaginn 10. október gangi leikjadagskráin eftir eins og hún er núna. Eftir leikinn við Val taka við þrír leikir á þremur vikum áður en stutt hlé verður gert vegna landsleikjaviku frá lokum október til 10. nóvember. FH, Fram og Afturelding bíða Víkinga áður fyrir hléið í lok október.
Ljóst er að Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkinga, og hans menn verða bæði að bíta í skjaldarrendur og einnig breyta um kúrs á næstu dögum og vikum. Í stað þess að búa sig undir átök í Grill66-deildinni verða þeir að þétta raðirnar fyrir keppni við liðin í Olísdeildinni en slíkt var ekki upp á borðinu fyrir nokkrum dögum síðan. Skjótt skipast veður í lofti.