Enn einn daginn fá forráðamenn íslenska landsliðsins í handknattleik þær jákvæðu fréttir frá forráðamönnum heimsmeistaramótsins í handknattleik að engin smit kórónuveiru finnist innnan íslenska hópsins sem tekur þátt í mótinu. Á það jafnt við um keppendur sem starfsmenn.
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, greindi fjölmiðlum sem eru með íslenska landsliðshópnum í Egyptalandi frá þessu fyrir stundu.
Síðan á laugardaginn hefur íslenski hópurinn farið daglega í skimun að skipun mótsstjórnar. Áður stóð til að skimun yrði gerð á þriggja sólarhringa fresti. Eftir að smit greindust í nokkru mæli við landamæri við komu nokkrurra liða var ákveðið að herða róðurinn við skimunina sem gerð er með svipuðu sniði og heima á Íslandi, þ.e. tekin eru sýni úr koki og nefgöngum.
Mjög mikil áhersla er lögð á persónubundnar sóttvarnir innan íslenska hópsins sem tekur þátt í HM í Egyptalandi.