Afturelding og Valur mætast í oddaleik í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik á föstudagskvöldið. Aftureldingarmenn sáu til þess með því að vinna Valsmenn, 29:26, í fjórða undanúrslitaleik þeirra að Varmá í kvöld, 29:26. Hvort lið hefur þar með unnið tvisvar sinnum. Sigurlið leiksins á föstudaginn mætir Fram í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.
Flautað verður til leiks í N1-höllinni klukkan 20.15.
Afturelding var lengst af yfir í leiknum í kvöld, m.a. 16:13 í hálfleik eftir að hafa skoraði sex mörk í röð án svars frá Val á rúmlega 10 mínútna kafla.
Eftir fremur jafnar fyrstu 15 mínútur þá náði Valur fjögurra marka kafla og komst yfir, 13:10. Eftir að Þorvaldur Þorvaldsson skoraði 13. markið eftir hraðaupphlaup skoraði Valsliðið ekkert það sem eftir var hálfleiksins, í 10 mínútur og 16 sekúndur. Afturldingarmenn gengur á lagið og skoruðu sex mörk í röð og voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13.
Talsvert var um tapaða bolta og að leikmenn kæmust inn í sendingar andstæðinga sinna í fyrri hálfleik og ljóst að talsverð spenna var í leikmönnum beggja liða enda talsvert undir, ekki síst hjá Mosfellingum sem urðu að vinna til þess að eiga þess kost að fá oddaleik.
Aftureldingarmenn héldu áfram að hamra járni í upphafi síðari hálfleiks og náðu fimm marka forskoti, 19:14, eftir sjö mínútur þegar Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals hóaði sínum mönnum saman til skrafs og ráðagerða.
Afturelding gaf ekkert eftir og hélt forskoti sínu. Blær Hinriksson fór hamförum í sóknarleiknum og Einar Baldvin Baldvinsson varði vel í marki Aftureldingar.
Óskar Bjarni þjálfari Vals tók sitt síðasta leikhlé 13 mínútum fyrir leikslok, fimm mörkum undir, 25:20.
Valsmenn nýttu sér yfirtölu og skoruðu tvö mörk í röð og minnkuðu muninn í þrjú mörk, 27:24, þegar hálf sjöunda mínúta var til leiksloka.
Bjarni í Selvindi minnkaði muninn í tvö mörk, 27:25, fjórum mínútum fyrir leikslok. Nær komust Valsarar ekki.
Mörk Afureldingar: Blær Hinriksson 9, Ihor Kopyshynskyi 7, Árni Bragi Eyjólfsson 4, Birgir Steinn Jónsson 4, Kristján Ottó Hjálmsson 2, Harri Halldórsson 2, Stefán Magni Hjartarson 1.V
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 14, 35% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 1/1, 100%.
Mörk Vals: Bjarni í Selvindi 7, Allan Norðberg 4, Kristófer Máni Jónasson 3, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 3, Magnús Óli Magnússon 3, Agnar Smári Jónsson 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1, Viktor Sigurðsson 1, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1, Daníel Örn Guðmundsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 14/2, 34,1%.
Handbolti.is var að Varmá og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.